Ég held að þetta sé mynd sem næstum því hver sem er getur haft gaman af. Ég horfði á hana með frænda mínum sem er 11 ára en hann þurfti að fara þegar hálftími var eftir af myndinni. Pabbi hans þurfti nánast að draga hann frá skjánum.
Eitt það besta við Seven Samurai er hversu skýr og einföld frásögnin er. Bestu myndirnar sem ég hef séð hafa þennan eiginleika. Ef þú ert með gott efni í höndunum er best að miðla því á sem einfaldastan hátt. Þegar sagan er í forgrunni er auðvelt að fylgjast með. Þá getur maður pælt í því sem er á skjánum í stað þess að hafa áhyggjur yfir einhverju sem leikstjórinn gæti verið að vísa til eða gefa í skyn. Það er svo oft sem að leikstjórar flækja myndirnar sínar með alls kyns aukaatriðum. Yfirleitt þýðir það að þeir eru annaðhvort ekki með nægilega gott efni eða að þeir hreinlega kunna ekki að segja frá.
Hvort myndi maður frekar vilja heyra, góðan sögumann segja grípandi sögu eða einhvern John "MoFo" Doe segja einhverja random "djúpa" hluti í einn og hálfan tíma? Sæll!
Þegar leikstjóri hefur eins fullkomið vald á miðli sínum og Kurosawa hafði í þessari mynd getur áhorfandinn slakað á. Maður treystir því ferli sem kvikmyndin er. Rytminn er réttur og frásögnin flæðir áreynslulaust áfram. Þessir eiginleikar gefa Seven Samurai raunsæislegan blæ. Lokabardaginn kemur áhorfandanum alls ekki á óvart því að uppbyggingin er löng og ströng, rétt eins og þetta hefði getað gerst í raunveruleikanum.
Seven Samurai kennir okkur mikið um japanskan kúltúr, bæði beint og óbeint. Með því að fylgjast með karakterunum lærir maður mikið um japanskar hefðir og gildi án þess að taka beinlínis eftir því. Þessi gildi eru órjúfanlegur hluti þess að vera Japani. Jafnvel það hvernig myndin sjálf er gerð frá hendi Kurosawa ber vott um hans japanska bakgrunn. Leikstjórnarstíll hans er mjög afdráttarlaus en lætur lítið yfir sér á sama tíma. Þegar kemur að frásögninni dvelur hann aldrei of lengi við hverja senu og stefnan er alltaf beint framávið. Aftur á móti kynnumst við sögupersónum myndarinnar ekki með beinum hætti heldur frekar með því að fylgjast með líkamstjáningu þeirra og látbragði. Kurosawa dregur ekki meiri athygli að séreinkennum sögupersóna sinna en þörf krefur. Þetta eru orðlaus samskipti sem Kurosawa á með áhorfandanum.
Wednesday, December 5, 2007
Subscribe to:
Posts (Atom)