Þessi er frábær. Eins og Martin Scorsese sagði, "If you don´t like Sam Fuller, you don´t like movies."
Myndin gerist í seinni heimsstyrjöldinni og fjallar um fyrstu herdeild Bandaríkjahers, öðru nafni The Big Red One. Hún fylgir liðsstjóra og hermönnum herdeildarinnar um endilanga Evrópu frá einum bardaga til annars. Myndin er sjálfsævisöguleg, þar sem að Sam Fuller þjónaði í fyrstu herdeild Bandaríkjahers (sem var líka kölluð "The Big Red One") í seinni heimsstyrjöldinni. Persónan Zab er byggð á Fuller.
The Big Red One er ólík öllum öðrum stríðsmyndum sem ég hef séð því að hún einblínir ekki á að kalla fram tilfinningar hjá áhorfendum. Mér finnast myndir eins og Saving Private Ryan eða Flags of our Fathers (sem ég lék í, nota bene, mínúta 31:00, tékkaðu bara á því) þunglamalegar og tilgerðarlegar. Með dramatískri tónlist og myndskotum af hermönnum sem eru að reyna að setja innyfli sín aftur saman gefa slíkar kvikmyndir of hlutbundna mynd af stríðsrekstri. Það er líka óþægilega mikil föðurlandsást í Hollywood-hermyndum. Þær eru næstum því eins og auglýsing fyrir bandaríska herinn. Ég held að ein ástæðan fyrir því að svona margar hermyndir falla í þessa gryfju sé sú að leikstjórar og handritshöfundar vita ekki hvernig það er að vera í stríði. Sam Fuller vissi hvernig var að vera hermaður. Aðalpersónur The Big Red One sýna engar tilfinningar þótt félagar þeirra séu drepnir. Sam Fuller, í hlutverki leikstjórans, gerir það ekki heldur. Hermenn verða að tileinka sér tilfinningaleysi til þess að geta lifað af í stríði. Þessi tilfinningaskortur veitir myndinni léttleika og gerir hana miklu raunverulegri.
The Big Red One er svo fersk einmitt vegna þess hversu einföld hún er. Leikstjórar frönsku nýbylgjunnar eins og Truffaut og Godard dáðu Sam Fuller sem er svolítið írónískt í ljósi þess að þeir gerðu oft flóknar myndir, á meðan að Sam Fuller gerir svo beinskeyttar ræmur að maður fær næstum því sjokk.
Uppáhaldskarakterinn minn í myndinni er liðstjórinn sem Lee Marvin leikur. Liðstjórinn er eins og föðurímynd fyrir hermennina í herdeildinni. Hann er alltaf vakandi, hann passar uppá sína menn en hann er ekkert að skipta sér af þeirra högum. Hann dílar bara við hlutina eins og þeir koma til hans, mestu máli skiptir að klára verkið, það er óþarfi að pæla í því hvað hefði betur mátt fara.
Ég held að The Big Red One sé óður Sam Fullers til liðstjórans í 1. herdeild. Fuller hafði verklagið frá honum þegar hann var í leikstjórastólnum.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
2 comments:
Glæsileg færsla. Ég hef ekki séð þessa, en hún hljómar vel. Lee Marvin stendur alltaf fyrir sínu, enda ofurtöffari.
Ein ástæðan fyrir því að bandarískar stríðsmyndir eru oft eins og auglýsing fyrir herinn er sú að þær eru auglýsing fyrir herinn. Málið er að langflestar bandarískar stríðsmyndir eru gerðar með hjálp hersins, en herinn þarf að samþykkja myndina. Þannig eru menn í hernum sem lesa yfir handritið, og ef herinn ákveður að hjálpa til þá er alltaf til staðar eftirlitsmaður frá þeim sem passar upp á að herinn sé sýndur í jákvæðu ljósi. Svo fá þeir að sjá myndina áður en hún fer í sýningar, og geta jafnvel farið fram á breytingar!
Það er eiginlega ómögulegt að gera stríðsmynd nema með hjálp hersins, a.m.k. yrði kostnaðurinn fáránlegur ef kvikmyndagerðarmennirnir þyrftu að kaupa eða leigja öll stríðstólin (sem er oft ekkert hægt). Og herinn hjálpar til einmitt vegna þess að stríðsmyndir hafa auglýsingagildi. Fyrir vikið eru stríðsmyndir yfirleitt ansi hliðhollar hernum.
Jeí gaman ad lesa kvikmyndafródleik! Hvenær kemur næsta umfjøllun?
Love
Elva
Post a Comment