Saturday, October 27, 2007

Auf der anderen Seite (2007) - Fatih Akin

Þetta er virkilega falleg og vel gerð mynd. Þetta er svona "tengimynd" eins og ég hef talað um áður, þar sem ólíkar sögur karakteranna skarast og frásögninni er skipt upp á óreglulegan hátt. Það er kannski svolítið týpískt að gera svona mynd í dag en sagan er það flókin að það er eiginlega nauðsynlegt að skipta frásögninni upp og tvinna saman ólíkum þáttum. Frásagnarmátinn er ekki aðalatriðið heldur eru það karakterarnir sjálfir og samböndin milli þeirra.

Það er margt í þessari mynd sem sannar það að frásögnin er ekta. Maður fær mjög góða tilfinningu fyrir kúltúrnum, ekki bara tyrkneskum kúltúr heldur líka þýskum kúltúr. Svo má nefna tónlistina í myndinni. Það er augljóst að sá sem valdi tónlistina hefur raunverulegan áhuga á tyrkneskri tónlist því að hún var virkilega flott. Hann vissi hvað hann var að gera, hann fór ekki bara inná Bearshare og sló inn "exotic turkish music".

Það er allt gott í þessari mynd, hvort sem það er leikurinn, leikstjórnin, myndatakan osfrv. Mér fannst sérstaklega gaman að fallegum skotum af tyrknesku sveitinni. Hanna Schygulla (sem lék Mariu Braun, sjá færsluna fyrir neðan) var áberandi góð í myndinni. Hún er það reynd leikkona að hún þarf ekki að slá um sig með tilþrifum, hún gerir bara það sem þarf til að skapa mjög áhrifaríka túlkun.

Ég horfði á Seven Samurai eftir Kurosawa um daginn. Fyrir utan það hvað hún er góð lærði ég líka mjög mikið um japanskan kúltúr án þess að það væri aðalatriðið. Það sama á við um Auf der anderen seite. Leikstjórinn er mjög meðvitaður um tyrkneska menningu og það skín í gegn. Það er togstreita milli ólíkra viðhorfa til tyrkneskrar menningar í nútímanum og það endurspeglast í þeim ólíku tilfinningum sem sögupersónurnar bera til Tyrklands.

Það er ríkuleg upplifun að horfa á þessa mynd án þess að vita mikið um söguþráðinn og því er svolítið erfitt að segja frá henni án þess að skemma fyrir. Ég get þó sagt ykkur að það er óþarfi að sitja í gegnum allan kreditlistann í lokin. Það gerist ekki rassgat.

No comments: