Þessi mynd var sýnd á filmu sem að mér fannst mjög skemmtilegt. Það er eitthvað við skruðninginn í filmunni sem skapar svo lifandi stemningu. Svo er sýningarstjóri sem þarf að skipta um filmu nokkrum sinnum á meðan á sýningunni stendur.
Þetta var fyrsta Fassbinder myndin mín en pabbi minn sá margar myndir eftir hann á sínum tíma. Pabbi upplifði þær sem brautryðjendaverk sem tóku á málum sem voru tabú, t.d. samkynhneigð, hjónasambönd milli ólíkra kynþátta og seinni heimsstyrjöldin. Ég hef það frá Mæju Loebell að á eftirstríðsárunum hafi seinni heimsstyrjöldin verið eins og eyða í sögu Þýskalands.
Die Ehe der Maria Braun gerist í Þýskalandi á eftirstríðsárunum. Landið var í molum. Aðalpersónan Maria Braun, eins og margir Þjóðverjar á þessu tímabili, hugsar bara um eitt og það er að komast áfram í lífinu. Hún hikar ekki við að fórna mannorði sínu fyrir betri stað í lífinu. Þegar botninum er náð skipti mannorð engu máli.
Þetta er þung mynd en hún hefur sína kosti. Það skín í gegn að Fassbinder var heill í því sem hann gerði. Ég held að hann hafi borið mikið traust til leikara sinna, því hann gefur þeim frelsi til þess að vera frumlegir. Leikurinn var eðlilegur og afslappaður og mér hefur aldrei fundist þýskan hljóma jafn náttúrulega í bíómynd. Það var eiginlega leikurinn sem heillaði mig frekar en myndin.
Ég sá nýlega La Notte eftir Michelangelo Antonioni. Bæði La Notte og Maria Braun eru mjög langdregnar og hversdagslegar myndir en öfugt við Fassbinder virkaði Antonioni mjög fjarlægur sögupersónum sínum. Fassbinder hefur samúð með sínum sögupersónum. Þess vegna var miklu auðveldara að horfa á Mariu Braun.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
1 comment:
Gaman ad pæla í hvernig madur upplifir ad sjá mynd á alvøru filmu og áhugavert ad pæla í hlutverki leikstjórans í stemningunni...
-E
Post a Comment