Thursday, March 27, 2008
The 400 Blows (1959) - François Truffaut
Mér finnst þetta vera besta mynd Truffauts af þeim myndum sem ég hef séð eftir hann. Það er virkilega gaman að sjá barnaleikara sem hegða sér eins og alvöru börn öfugt við margar Hollywood myndir þar sem barnaleikararnir haga sér eins og þeir séu miklu eldri en þeir eru.
Þetta er fyrsta mynd Truffauts í fullri lengd og fyrsti hluti í fimm mynda seríu sem fylgir aðalhetjunni Antoine Doinel frá barnæsku til fullorðinsára. Ég hef þrjár myndir úr þessari seríu (hinar eru Bed and Board og Stolen Kisses) og mér finnst 400 Blows langsamlega best. Í fyrstu myndinni sjáum við Antoine birtast á hvíta tjaldinu af miklum krafti sem spennandi og stórhuga karakter. Það eru alltaf vandamál hvert sem hann fer og það á líka við um síðari myndirnar en þá hefur hann misst sjarmann sem hann hafði sem barn. Antoine breytist í ósjálfbjargan aumingja sem er kannski raunsæi í sjálfu sér en mér finnst 400 Blows vera í allt öðrum klassa og seinni myndirnar skemma þá mynd sem ég hef af Antoine þegar hann er ungur.
Það þekkja allir þessar hreinu og sterku tilfinningar sem við upplifum sem börn. Yfirleitt þegar leikstjórar gera myndir um börn þá þá sjáum við börnin frá sjónarhorni fullorðins sem skapar fjarlægð milli áhorfandans og persónu barnsins. Það merkilegasta við 400 Blows er að Truffaut fylgir barninu í gegnum alla myndina eins og það væri hann sjálfur án þess að bæta við einhverjum "fullorðins" skilningi við myndina.
Tilfinningar Antoine móta því myndina að öllu leyti. Truffaut framkvæmir þetta með ýmsum stílbrigðum. Myndatakan fylgir alfarið stemningunni. Þegar Antoine er í skólanum leiðist honum og myndataka hæg og reglubundin en þegar hann hleypur um götur Parísar með vini sínum hreyfist myndavélin eftir því auk þess sem fjörug flautusambatónlist birtist upp úr þurru til að undirstrika ástandið.
Annað dæmi er þegar Antoine sér móður sína með öðrum manni. Í venjulegri mynd fengjum við sjónarhorn fullorðins-atriðið yrði gert dramatískt eða reynt að benda á þau slæmu áhrif sem framhjáhaldið hefði á barnið. Þetta atvik skiptir Antoine hins vegar litlu máli. Hann hefur alveg nóg af vandamálum, og þar sem hann pælir ekki í þessu þá pælir myndin heldur ekki í þessu og hún heldur bara áfram. Þetta er mjög mikilvægt atriði til þess að skilja sjónarhorn og tilgang myndarinnar.
Þegar Antoine er sendur í fangelsi skilur maður loksins hversu illa honum líður og það að hann hafði ekki þroska til þess að skilja orsök og afleiðingu. Það sem er ótrúlegt við þennan hluta myndarinnar er sá að það kemur okkur jafn mikið á óvart og Antione að hann skuli lenda í fangelsi. Við erum svo gjörsamlega samdauna Antoine að við sem áhorfendur höfðum ekki heldur gert okkur grein fyrir afleiðingum gjörða hans.
Seinasta atriðið í myndinni slær annan tón. Þegar maður horfir á Antoine hlaupandi á ströndinni tengist myndatakan ekki tilfinningum hans. Það er eins og andartakið þegar hann breytist í fullorðinn sé fangað á mynd þegar hann horfir beint í myndavélina og kameran frýs.
Samt sem áður má segja að barn myndi ekki skilja þessa mynd enda er erfitt fyrir einstakling í miðjum barndómi sínum að skilja mynd sem fjallar um barndóm. Þetta er fullorðinsmynd en tilfinningin er barnsins.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
1 comment:
Mjög fín færsla. 7 stig.
Er myndin ekki einmitt byggð á æsku Truffaut?
Post a Comment