Wednesday, April 16, 2008

Blow Out (1981) - Brian De Palma

Þetta er fyrsta myndin sem ég sé eftir Brian De Palma og er hún ein af mínum uppáhaldsmyndum. Það sem gerir þessa mynd jafn magnaða eins og hún er, er hvað hún er gerð af mikilli vandvirkni og nákvæmni. Löng og falleg skot og ótrúleg hljóð fá þann tíma sem þau þaurfa til að njóta sín. Það er ekkert gert með flýti í þessari mynd og vegna þess helst spennan út alla myndina. Það skipti ekki máli hvort John Travolta var að setja saman mynd- og hljóðbúta eða hvort verið var að myrða einhvern, myndin hélt athygli manns allan tímann.

Mér fannst einnig mjög áhugavert að horfa á mynd þar sem hljóðið knýr söguþráðinn áfram. Í sambland við myndatökuna er hljóðið í aðalhlutverki á ótrúlega flottan hátt. Að horfa t.d. á Travolta hlusta á upptökuna og spóla til baka aftur og aftur fannst mér miklu áhugaverðara heldur en morðgátan.

Myndin er stútfull af ótrúlega flottum atriðum. Senan þegar Travolta fer að taka upp hljóð fyrir myndina sína og hann verður vitni að „bílslysi“ er örugglega ein fallegasta sena sem ég hef séð. Hún sýnir samvinnu hljóðs og myndar eins og hún gerist best.

Hins vegar fannst mér svolítið óþægilegt að horfa á sum atriðin, sérstaklega þau þar sem myndavélin hreyfðist óeðlilega mikið. Til dæmis var ein sena þar sem Travolta var að hlusta á hljóðbút af samsærinu og þá byrjar kameran að snúast í hringi. Þetta átti líklega að byggja upp einhverja ákveðna stemmningu í takt við hljóðið en mér varð hálfflökurt við að horfa á þetta og þurfti á endanum að líta undan. Þessi ýkta myndataka fannst mér algjör óþarfi því að hún reynir að leggja of mikla áherslu á hljóðið en í staðinn kemst hljóðið ekki til skila eins og það ætti að gera. Með "venjulegri" myndatöku hefði hljóðið haft miklu meiri áhrif á þessa senu. Þessi óþægilega myndataka (sem gerðist aðeins einstaka sinnum ) var í rauninni það eina sem mér fannst draga myndina niður.


Flotta senan og óþægilega senan (flotta er í byrjun, óþægilega byrjar 4:26)