Myndin Funny Games fjallar um tvo austurríska menn sem banka uppá hjá fjölskyldu í leit að aðstoð en enda á því að halda fjölskyldunni í gíslingu og leika sér að þeim með ýmsum mannskemmandi leikjum. Þessi mynd fannst mér vera sú áhugaverðasta sem við höfum horft á í öllum bíótímunum því að hún hélt athygli minni allan tímann. Ég er vanur að sofna í þessum tímum, ekki útaf því að þessar myndir sem við erum að horfa á séu leiðinlegar, heldur vegna þess að þær eru sýndar svo seint eftir skóla á mánudegi. Þegar ég horfði á Funny Games leit ég varla eitt andartak af skjánum. Þessi mynd er virkilega vel gerð, aðallega vegna þess að Haneke nær að nota tímann svo ótrúlega vel. Mörgum fannst senan þegar litli strákurinn var drepinn of löng en ég er ósammála því. Mér fannst þessi sena ótrúlega flott, sérstaklega vegna þess hve allt of löng hún var. Hún þurfti allt of langan tíma til þess að undirstrika stemninguna.
Það besta sem mér fannst við þessa mynd er hvernig andrúmsloftið tekur fyrirvaralaust ótrúlega snöggum breytingum. Við byrjum á því að mennirnir tveir líta út fyrir að vera kurteisir ungir menn en verða skyndilega allt of kröfuharðir á að fá nokkur egg og á nokkrum mínútum eru þeir komnir með algjört vald yfir fjölskyldunni. Síðan virðast þeir einungis ætla að hræða og leika sér að fjölskyldunni en allt í einu kemur í ljós að þeir eru löngu búnir að ákveða það að drepa alla í fjölskyldunni.
Brot úr eitt af leikjunum (fjarstýringsatriðið byrjar í 7:30)
Mér fannst mjög skemmtilegt að sjá að strákarnir tveir hóta fjölskyldunni ekki með byssu í byrjun til þess að ná yfirhöndinni heldur nota aðeins samtöl til þess að ná smátt og smátt valdastöðunni yfir fjölskyldunni. Það fór ekkert í taugarnar á mér þegar mennirnir litu á kameruna og spurðu spurninguna eða þegar annar gaurinn spólaði myndina til baka. Þetta er mynd um tvo sadista þar sem allt á að ganga upp hjá þeim. Af hverju mega þeir því ekki spóla til baka sér til hags eins og þeir vilja?
1 comment:
Fín færsla. 6 stig.
Post a Comment